Í minningu La Travíata

IMG_2213Haustið 2006 var komið að máli við mig að vera með í uppfærslu á óperunni La Travíata í uppsetningu Óperu Skagafjarðar. Það var auðsótt mál enda ekki á hverjum degi sem söngvarar norðan heiða fá slík tækifæri.

Nú er liðið rúmt ár frá því að ævintýrið hófst. Ævintýri sem var skapað af bjartsýni, dugnaði og áræðni.

Það var að mig minnir í nóvember 2006 sem ég byrjaði að glugga í nóturnar af La Travíata. Flestar aríurnar hafði ég sungið áður, þegar ég var í söngnámi á Akureyri, en annað var alveg nýtt fyrir mér. Fyrsta æfingin með undirleikaranum, Thomasi Higgerssyni var um miðjan desember.  

Í janúar 2007 fóru æfingar svo á fullt skrið og fyrsta æfingin með kór Óperunnar var 24. janúar. Þann 24. febrúar var farið í Laufskálarétt og kynningarmyndband var tekið upp. Það var ákaflega sérstakt að mæta í þessa frægustu hrossarétt landsins og sötra kampavín íklæddur kjólfötum.

Þegar kom fram í mars voru æfingar tvisvar í viku og allt farið að hljóma miklu betur. Og nú var Guðrún Ásmundsdóttir leikkona komin til skjalanna til að leikstýra verkinu og var hún með fastmótaðar skoðanir á hvernig þetta allt átti nú að vera. Hún var alltaf að breyta og bæta og sagði svo bara „om vi gen”.

Ákveðið var að fara með hluta verksins til Egilsstaða og þar var það flutt þann 31. mars. Sýningin tókst alveg þokkalega og hópurinn fékk þar eldskírn á sviðinu. Farið var með rútu austur og eins og þeir þekkja sem hafa farið í kórferðalög var rokna stuð á heimleiðinni og flestir vel hífaðir. Tom undirleikari var með eyrnatappa sem hann notaði óspart til að hafa smá næði enda hljómuðu fjallatenórarnir nú sem aldrei fyrr, þeir Birgir á Ríp, Einar Valur í Ási og Maggi Sigmunds.

Nú fóru í hönd stífar æfingar, þrjár, stundum fjórar eða fimm á viku og nú var Guðmundur Óli stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands mættur á svæðið með sína sveit. Allt var nú orðið vel smurt og gleðin skein úr hverju andliti. Ég, Alexandra, Maggi Sigmunds. og Tom fórum svo til Reykjavíkur og sungum og spiluðum í Kastljósi sjónvarpsins.

Frumsýning var svo í Íþróttahúsinu í Varmahlíð þann 29. apríl. Þessi dagur líður mér seint úr minni. Veðrið var frábært, hlýr sunnan andvari, sólskin og hiti. Spennan fór stigvaxandi þegar líða tók á daginn og sælustraumur fór um skrokkinn þegar stigið var á svið síðdegis þann dag. Fullt hús, um 600 manns og viðtökur frábærar í einu orði sagt. Um kvöldið var svo haldið frumsýningarpartý á Hótel Varmahlíð sem að hluta endaði heima hjá mér í Sunnuhlíð. Þá um kvöldið voru nokkrar aríur endurfluttar við mismikla hrifningu nágrannanna.

Æfingum var svo framhaldið í júní en einsöngvarar ákváðu að  halda minni sýningu á óperunni í Sögusetrinu á Hvolsvelli þann 15. júní. Þar var fullt hús gesta og allir skemmtu sér vel. Þá tók við smá frí fram í ágúst en þá var aftur hafist handa við æfingar og við sungum svo í Íþróttahúsi Glerárskóla þann 25. ágúst á Menningarvöku Akureyrarbæjar. Þá voru Guðmundur Óli og sinfóníuhljómsveitin með okkur og öllu tjaldað til. Þann 21. október var svo sungið í Blönduóskirkju við píanóundirleik Toms. Pál Barna Szabó var nú kominn í hópinn og tók við sprotanum úr hendi Guðmundar Óla.

Æfingar hófust svo að nýju rétt fyrir jólin 2007. Þá var stefnan tekin á Reykjavík, nánar tiltekið í Iðnó en þar var lokasýningin þann 20. janúar 2008. Fullt var út úr dyrum og komust færri að en vildu. Þessi sýning var ákaflega vel lukkuð og voru einsöngvarar og kór hylltir með dúndrandi lófaklappi í lok sýningar.

 

Ópera Skagafjarðar, Alexandra Chernyshova, Þórhallur Barðason, Thomas R. Higgersson, Guðrún Ásmundsdóttir, Guðmundur Óli Gunnarsson og Sinfóníuhljómsveit, Pál B. Szobó, Jón Hilmarsson og kór- menn og konur allar.

 

Hafið heila þökk fyrir samstarfið.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband