Sæluvika í Skagafirði

Það er mikið að gerast í Skagafirði þessa vikuna enda sæluvika þar sem menningin blómstrar og flestir ættu að geta fundið eitthvað áhugavert.

Eins og svo oft áður er tónlist í hávegum höfð í þessari viku og sæluvikan í ár er engin undantekning frá því.

Sæluvikan hófst sl. sunnudag með stórtónleikum Óperu Skagafjarðar á perlum úr La Traviata og Rigoletto. Tónleikarnir tókust afar vel, þrátt fyrir veikindi, bæði einsöngvara og kórfólks. Sigrún Hjálmtýsdóttir var gestasöngvari og var í miklu söngstuði. Ég söng með henni nokkra dúetta sem var alveg geggjað. Sigrún er frábær listamaður og því var það afar lærdómríkt að fá að syngja með henni.

Núna í vikunni hefur Söngskóli Alexöndru sýnt dagskrá tileinkuð Sigvalda Kaldalóns. Ég á eftir að sjá þá sýningu en fyrir mér er það skyldumæting þar sem Agnes Bára dóttir mín tekur þátt í sýningunni, en hún er að læra söng hjá Alexöndru.

Á föstudagskvöldið verður mikil tónlistarveisla í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Þar mun Geirmundur (hinn eini sanni) halda upp á 50 ára tónlistarferil sinn. Þar mætum við  Aðalsteinn sonur minn og tökum lagið með Karlakórnum Heimi. Auk Heimis munu fjölmargir tónlistarmenn stíga á svið og taka lagið með Geirmundi. Nokkuð viss um að þetta verður mikil og góð skemmtun.

Síðan verða stórtónleikar í Íþróttahúsinu í Varmahlíð á laugardagskvöldið en þá syngja fjórir kórar dagskrá sem ber heitið „Saman á ný”. Kórarnir eru; Karlakórinn Heimir, Rökkurkórinn í Skagafirði, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og Mosfellskórinn úr Mosfellsbæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband