15.4.2008 | 10:22
Ólafur og Dorrit í heimsókn
Það er mikið um að vera í Skagafirði þessa dagana. Forseti vor og frú eru í opinberri heimsókn og hafa víða komið við.
Í gærkvöldi var fjölskyldusamkoma þeim hjónum til heiðurs í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Er gaman að segja frá því að vel var mætt á þessa hátíð og nánast fullt út úr dyrum. Flutt var vegleg menningardagskrá þar sem stigu á svið Rökkurkórinn, Skagfirski Kammerkórinn, Karlakórinn Heimir og Óperukór Skagafjarðar. Auk þess spiluðu blásarasveit og harmonikkusveit Tónlistarskóla Skagafjarðar og nemendur Árskóla fluttu leikþátt .
Þetta var í fyrsta skipti síðan að ég held 1982 sem ég kem syng opinberlega með Karlakórnum Heimi og ég held að söngur kórsins hafi tekist ljómandi vel.
Þá kom ég einnig fram með Óperukórnum, byrjaði með einsöngsatriði og söng La donna, è mobile. Að því loknu færði ég forsetafrúnni rós og síðan sungum við Alexandra og kórinn Libiamo. Þessi atriði tókust afar vel og fengum við mikið klapp frá áhorfendum.
Það er alltaf gaman þegar vel tekst til og menningardagskráin í gærkvöldi sýndi svo um munaði hve mikil breidd er í skagfirsku menningarlífi.
Ég fullyrði að ekkert hérað utan höfuðborgarsvæðisins getur státað af slíkri fjölbreytni á sviði menningar, sem svo berlega kom í ljós á fjölskylduhátíðinni í gær.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Menning og listir, Tónlist | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.