...vitjaðu þá á vinafund...

Nokkuð er nú liðið á þorrann og er vetur hér í Skagafirði. Kominn talsverður snjór og frost verið viðvarandi undanfarnar vikur.

„Stóra þorrablótið“ verður haldið þann 9. n.k. í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Þar blóta þorra íbúar gömlu sveitahreppanna; Akrahrepps, Lýtingsstaðahrepps, Seyluhrepps og Staðarhrepps.

Reiknað er með metþátttöku á blótið, en búið er að panta um 980 miða.

Eins og jafnan á þorrablótum verður ýmislegt gert til skemmtunar og verður söngur fyrirferðarmikill á milli þess sem bændur og búalið verður tætt sundur í gríni og háði. Enginn er óhultur og á stundum þykir sá ekki maður með mönnum sem ekki fær útreið í þorrablótspistli. Hljómsveit Geirmundar mun svo leika fyrir dansi að borðhaldi loknu.

Undirbúningur og framkvæmd svona skemmtunar kostar mikla vinnu og hefur þorrablótsnefndin unnið sleitulaust að undirbúning undanfarnar vikur.

Læt hér fylgja með tvær vísur sem Jóhann í Stapa samdi nú fyrir skömmu en hann er einn af nefndarmönnum.

 

Ef að berðu létta lund

lífsins fær er vegur,

vitjaðu þá á vinafund

og vertu skemmtilegur. 

******************

Þeir sem fara á mannamót

mega láta berast,

að það á að halda þorrablót

þar sem allt mun gerast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband