Breyttar áherslur í barnaverndarmálum

Ég hlustaði á athyglisvert viðtal við Bryndísi Guðmundsdóttur, uppeldisfræðing og verkefnastjóra á Barnaverndarstofu í Speglinum á Rás2 í gær.

Þar upplýsti hún að tekin verður upp svokölluð MST meðferð, eða fjölþáttameðferð fyrir börn og unglinga sem eiga við ýmis vandamál að stríða s.s. hegðunarvanda eða vímuefnavanda.

Barnaverndarstofa hefur um árabil reynt árangurslaust að innleiða þessa meðferðarstefnu en ávallt orðið frá að hverfa vegna skorts á fjármagi. Nú hins vegar hefur stofnunin fengið fjárveitingu og verður fróðlegt að sjá hvernig þetta starf fer af stað næsta haust.

Mikil umræða hefur átt sér stað í þjófélaginu um meðferðarmál ungmenna og meðferðarheimili. Umræðan og fréttaflutningur fjölmiðla hefur verið nánast einhliða, á þann hátt að meðferðarheimili séu ekki að standa sig og meðal annars hefur því verið haldið fram að reykvískir unglingar kjósi frekar að afplána í fangelsi en að fara á meðferðarheimili. Hefur verið vitnað í nýútkomna rannsókn þar sem 8 unglingar voru spurðir út í reynslu sína af meðferðarheimilum. Af þessum 8 einstaklingum höfðu aðeins 3 verið vistaðir á meðferðarheimili og út frá svörum þessara þriggja var alhæft að unglingar kysu frekar fangelsisafplánun en meðferðarvistun.

Hér er að mínu mati langt seilst til að koma höggi á meðferðarvistun unglinga og í leiðinni reynt að gera allt meðferðarstarf tortryggilegt.

Því miður hefur Barnaverndarstofa ekki haft fjármagn til að rannsaka árangur meðferðarheimilanna. Þó eru til nokkrar skýrslur og sú nýjasta verður að öllum líkindum birt fljótlega. Sú skýrsla fjallar um meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði og hvet ég alla til að kynna sér hana.    

Hin neikvæða umfjöllun um meðferðarheimili hefur að mínu mati haft afar skaðleg áhrif. Þau birtast í því að barnaverndarnefndir og foreldrar halda að sér höndum. Þora ekki að leita eftir þeirri aðstoð sem í boði er á meðferðarheimilum. Á meðan er ekkert gert fyrir þá einstaklinga sem eru á kafi í afbrotum og neyslu. Vandamálin eru til staðar, það vantar bara kjark til að viðurkenna vandann og bregðast við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband