Nýjasta nýtt

Kominn tími á smá blogg.

 

Búið að vera mikið um að vera síðustu vikurnar. Ekki þó í söng þar sem ég hef ekki gefið mér tíma til slíkra æfinga.

 

Frá því í byrjun júní hef ég verið að vinna hjá Íbúðalánasjóði, er gamall innanbúðarmaður þar og þekki því vel. Vona að sjóðurinn haldi áfram að þjónusta íbúðakaupendur þessa lands því ekki gera viðskiptabankarnir það.

 

Svo í byrjun ágúst tek ég við rekstri meðferðarheimilisins að Háholti. Búinn að vera að vinna að því máli frá því í maí. Stofna fyrirtæki um reksturinn, gera kjarasamning við starfsmenn og ráða þá. Búinn að sitja fjölmargir samstarfsfundir við Barnaverndarstofu og margt fleira sem þurft hefur að ganga frá. Mikil vinna en skemmtileg. Hið nýja fyrirtæki heitir Hádrangar ehf.

 

Undanfarið hef ég verið í heyskap, þarf að heyja handa hrossunum. Þarf að láta rúlla ca. 60 rúllur, það á að duga yfir vetrarmánuðina. Er með heyskap á Reykjarhóli þar sem ég þarf jafnframt að aðstoða bóndann þar við heyskapinn. Vonandi klárast það áður en júlí er allur.

 

Því um næstu mánaðarmót förum við hjónin ásamt Aðalsteini til Helsingi og St. Pétursborgar, í kórferðalag. Það er Karlakórinn Heimir sem er að fara í víking til þessara borga í tilefni af 80 ára starfsafmæli kórsins. Þetta er tíu daga ferðalag þar sem kórinn mun syngja opinberlega á þremur stöðum. Um 50 kórmenn taka þátt í ferðinni og ásamt mökum og aukaliði telur þetta um hundrað manns sem fer í ferðina.

 

Læt þetta duga að sinni.

Kv


Vortónleikar Karlakórs Akureyrar-Geysis

Karlakór Akureyrar – Geysir verður með sína árlegu vortónleika í Glerárkirkju laugardaginn 17. maí, klukkan 16:00. Fjölbreytt og skemmtilegt lagaval. Einsöngvarar: Ari Jóhann Sigurðsson, Heimir Ingimarsson, Sigurður Pálsson og Þór Sigurðsson. Aðgangseyrir er 2.000 kr.

Á efnisskránni eru vel þekkt stórvirki, vor- og sumarlög, nokkur lög tengd Vilhjálmi Vilhjálmssyni og fleira. Þó þú langförull legðir, Capri-Katarína, Heim á leið, Gullnu vængir, Hraustir menn, Brimlending, Þakkarbæn, Þú álfu vorrar yngsta land, Lóan er komin, Vor í Vaglaskógi, Þýtur í stráum, Nótt, Í grænum mó, Meestelaul, Söknuður, Dagný, Gömul spor, O, Sole mio og Funiculi, Funicula.

Stjórnandi er Valmar Väljaots og píanist er hinn óviðjafnanlegi Aladár Rácz.


Sæluvika í Skagafirði

Það er mikið að gerast í Skagafirði þessa vikuna enda sæluvika þar sem menningin blómstrar og flestir ættu að geta fundið eitthvað áhugavert.

Eins og svo oft áður er tónlist í hávegum höfð í þessari viku og sæluvikan í ár er engin undantekning frá því.

Sæluvikan hófst sl. sunnudag með stórtónleikum Óperu Skagafjarðar á perlum úr La Traviata og Rigoletto. Tónleikarnir tókust afar vel, þrátt fyrir veikindi, bæði einsöngvara og kórfólks. Sigrún Hjálmtýsdóttir var gestasöngvari og var í miklu söngstuði. Ég söng með henni nokkra dúetta sem var alveg geggjað. Sigrún er frábær listamaður og því var það afar lærdómríkt að fá að syngja með henni.

Núna í vikunni hefur Söngskóli Alexöndru sýnt dagskrá tileinkuð Sigvalda Kaldalóns. Ég á eftir að sjá þá sýningu en fyrir mér er það skyldumæting þar sem Agnes Bára dóttir mín tekur þátt í sýningunni, en hún er að læra söng hjá Alexöndru.

Á föstudagskvöldið verður mikil tónlistarveisla í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Þar mun Geirmundur (hinn eini sanni) halda upp á 50 ára tónlistarferil sinn. Þar mætum við  Aðalsteinn sonur minn og tökum lagið með Karlakórnum Heimi. Auk Heimis munu fjölmargir tónlistarmenn stíga á svið og taka lagið með Geirmundi. Nokkuð viss um að þetta verður mikil og góð skemmtun.

Síðan verða stórtónleikar í Íþróttahúsinu í Varmahlíð á laugardagskvöldið en þá syngja fjórir kórar dagskrá sem ber heitið „Saman á ný”. Kórarnir eru; Karlakórinn Heimir, Rökkurkórinn í Skagafirði, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og Mosfellskórinn úr Mosfellsbæ.


Ólafur og Dorrit í heimsókn

Það er mikið um að vera í Skagafirði þessa dagana. Forseti vor og frú eru í opinberri heimsókn og hafa víða komið við.

Í gærkvöldi var fjölskyldusamkoma þeim hjónum til heiðurs í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Er gaman að segja frá því að vel var mætt á þessa hátíð og nánast fullt út úr dyrum. Flutt var vegleg menningardagskrá þar sem stigu á svið Rökkurkórinn, Skagfirski Kammerkórinn, Karlakórinn Heimir og Óperukór Skagafjarðar. Auk þess spiluðu blásarasveit og harmonikkusveit Tónlistarskóla Skagafjarðar og nemendur Árskóla fluttu leikþátt .

Þetta var í fyrsta skipti síðan að ég held 1982 sem ég kem syng opinberlega með Karlakórnum Heimi og ég held að söngur kórsins hafi tekist ljómandi vel.

Þá kom ég einnig fram með Óperukórnum, byrjaði með einsöngsatriði og söng La donna, è mobile. Að því loknu færði ég forsetafrúnni rós og síðan sungum við Alexandra og kórinn Libiamo. Þessi atriði tókust afar vel og fengum við mikið klapp frá áhorfendum.

Það er alltaf gaman þegar vel tekst til og menningardagskráin í gærkvöldi sýndi svo um munaði hve mikil breidd er í skagfirsku menningarlífi.

Ég fullyrði að ekkert hérað utan höfuðborgarsvæðisins getur státað af slíkri fjölbreytni á sviði menningar, sem svo berlega kom í ljós á fjölskylduhátíðinni í gær.


Ópera Skagafjarðar á sæluviku Skagfirðinga

Ópera Skagafjarðar, tónleikar 27. apríl.

Á efnisskrá eru perlur úr óperunum La Traviata og Rigoletto eftir G. Verdi

 

Tónleikarnir verða í íþróttahúsinu í Varmahlíð, sunnudaginn 27. apríl kl. 16:00

Miðaverð er kr. 4000, forsala er í útbúum Kaupþings í Skagafirði. Einnig er hægt að kaupa miða á midi.is.

Fram koma 10 einsöngvarar, kór Óperu Skagafjarðar og  15 manna kammerhljómsveit Óperu Skagafjarðar.

Hljóðfæraleikar eru meðal þeirra færustu á landinu og eru þeir flestir í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Stjórnandi hljómsveitar verður Keith Reed.

Sérstakur gestasöngvari verður Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), sópran

Einsöngvarar:

  • Ari Jóhann Sigurðsson, tenór
  • Alexandra Chernyshova, sópran
  • Þórhallur Barðasons, baritón
  • Stefán Arngrímsson, bassi
  • Jóhannes Gíslason, bassi
  • Sigríður Margrét Ingimarsdóttir, messósópran
  • Sigurdríf Jónatansdóttir, messósópran
  • Ásdís Guðmundsdóttir, messósópran
  • Þorsteinn Bjarnason, tenór
  • Steinþór Þráinsson, baritón

 Tónleikarnir eru um leið útgáfufagnaður á tvöföldum geisladiski, annars vegar upptökur frá La Traviata og hins vegar heimildarmynd „Ævintýrin gerast enn" eftir Anup Gurung, kvikmyndargerðarmanns og kajakræðara. Diskurinn verður í boði á tónleikunum og kostar kr. 2200.

„Ég lít í anda liðna tíð"

Leik- og söngdagskrá um ævi og störf Sigvalda Kaldalóns

Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona og Söngskóli Alexöndru

Sýningar í Villa Nova, Sauðárkróki

Mánudaginn 28. apríl kl. 17:00

Þriðjudaginn 29. apríl kl. 17:00

Miðvikudaginn 30. apríl kl. 17:00 - uppselt

Fimmtudaginn 1. maí kl. 17:00

Forsala miða í Sparisjóði Skagafjarðar, 455-5555

Miðaverð kr. 2000

Söngskóli Alexöndru í samvinnu við Guðrúnu Ásmundsdóttur leikkonu ætla að bjóða upp á menningarkvöld í Villa Nova þar sem er blandað saman sögu Sigvalda Kaldalóns og flutningi á verkum hans. Flutningur verkanna verður í höndum söngnemenda Söngskóla Alexöndru.

Sigvaldi Stefánsson Kaldalóns, tónskáld og læknir, fæddist árið 1881 og lést 1946. Hann var héraðslæknir á ýmsum stöðum en lengst í Nauteyrarhéraði við Ísafjarðardjúp 1910-21. Þar tók hann upp ættarnafnið Kaldalóns. Sigvaldi samdi hátt á annað hundrað sönglaga sem mörg hver hafa orðið gríðarlega vinsæl og eru enn á hvers manns vörum. Meðal laga hans eru, Á Sprengisandi, Þú eina hjartans yndið mitt, Hamraborgin og Svanasöngur á heiði. Hann samdi einnig nokkur kórlög, m.a. Ísland ögrum skorið, og fáein lög fyrir hljóðfæri.

Dagskráin verður á Sæluviku Skagfirðinga í Villa Nova, einu elsta og virðulegasta húsi Sauðárkróks. Skagfirðingum og öðrum Norðlendingum gefst með þessari dagskrá tækifæri á því að fræðast um ævi og störf Sigvalda Kaldalóns í flutningi einnar bestu og reynslu mestu leikkonu landsins í þessari aðferð leiklistar, þ.e. söguaðferð.

Nemendur Söngskóla Alexöndru fá einnig tækifæri á því að koma fram og syngja á tónleikum, með því næst að flétta saman fræðandi dagskrá leikkonu og sögumanns og söngnemenda sem eru að stíga sín fyrstu spor í opinberum söngflutningi.


Hæ tröllum

Hæ tröllum - kóramót verður haldið á Akureyri laugardaginn 5. apríl n.k. Það er Karlakór Akureyrar-Geysir sem hefur veg og vanda að þessu árlega míní-kóramóti. Að þessu sinni verða gestakórarnir tveir, þ.e. Grundartangakórinn frá Akranesi og Karlakórinn Hreimur úr Þingeyjarsýslu.

Hver kór syngur fimm lög en að því loknu syngja þeir fjögur lög sameiginlega. Mótið verður haldið í Glerárkirkju 5. apríl og hefst kl. 17.00

Um kvöldið verður svo haldin sameiginleg kvöldskemmtun í Lóni, félagsheimili Karlakórs Akureyrar-Geysis fyrir kórmenn og maka þeirra.

Svona kóramót eru skemmtileg tilbreyting í starfi kóranna. Söngmenn hittast og bera saman bækur sínar og kynnast hver öðrum. Þá eykur það fjölbreytni fyrir áhorfendur að fá söng þriggja kóra til að hlusta á svo maður tali nú ekki um þegar þeir syngja saman. Reikna má með að þegar kórarnir syngja saman telji það yfir 100 manna kór. Að hlusta á svo fjölmennan kór er jafnan ákaflega gaman, kröftugur söngur sem jafnan vekur sterk viðbrögð.

Semsagt í Glerárkirkju n.k. laugardag kl. 17.00

Sjáumst


Heimir aftur í Langholtskirkju með Stefán Íslandi dagskránna.

Vegna fjölda áskoranna verður Karlakórinn Heimir með tvenna tónleika suðvestan lands um næstu helgi. Fyrri tónleikarnir verða á   laugardaginn 23 febrúar  í Langholtskirkju kl: 15:00
og þeir síðari á Akranesi kl: 20:00.  Forsala aðgöngumiða fyrir tónleikana í Langholtskirkju er í verslunum Eymundsson í Austurstræti og í Kringlunni.  Miðar á sýninguna á Akranesi, sem haldin verður í Tónbergi, nýjum sal tónlistarskólans, verða seldir við innganginn.

Helgina þar á eftir verður svo haldið austur og sungið  laugardaginn 1.mars kl. 15:00 í Eskifjarðarkirkju og svo í Egilsstaðakirkju kl:  20:00.

 

sjá nánar á http://www.heimir.is/

 


...vitjaðu þá á vinafund...

Nokkuð er nú liðið á þorrann og er vetur hér í Skagafirði. Kominn talsverður snjór og frost verið viðvarandi undanfarnar vikur.

„Stóra þorrablótið“ verður haldið þann 9. n.k. í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Þar blóta þorra íbúar gömlu sveitahreppanna; Akrahrepps, Lýtingsstaðahrepps, Seyluhrepps og Staðarhrepps.

Reiknað er með metþátttöku á blótið, en búið er að panta um 980 miða.

Eins og jafnan á þorrablótum verður ýmislegt gert til skemmtunar og verður söngur fyrirferðarmikill á milli þess sem bændur og búalið verður tætt sundur í gríni og háði. Enginn er óhultur og á stundum þykir sá ekki maður með mönnum sem ekki fær útreið í þorrablótspistli. Hljómsveit Geirmundar mun svo leika fyrir dansi að borðhaldi loknu.

Undirbúningur og framkvæmd svona skemmtunar kostar mikla vinnu og hefur þorrablótsnefndin unnið sleitulaust að undirbúning undanfarnar vikur.

Læt hér fylgja með tvær vísur sem Jóhann í Stapa samdi nú fyrir skömmu en hann er einn af nefndarmönnum.

 

Ef að berðu létta lund

lífsins fær er vegur,

vitjaðu þá á vinafund

og vertu skemmtilegur. 

******************

Þeir sem fara á mannamót

mega láta berast,

að það á að halda þorrablót

þar sem allt mun gerast.


Breyttar áherslur í barnaverndarmálum

Ég hlustaði á athyglisvert viðtal við Bryndísi Guðmundsdóttur, uppeldisfræðing og verkefnastjóra á Barnaverndarstofu í Speglinum á Rás2 í gær.

Þar upplýsti hún að tekin verður upp svokölluð MST meðferð, eða fjölþáttameðferð fyrir börn og unglinga sem eiga við ýmis vandamál að stríða s.s. hegðunarvanda eða vímuefnavanda.

Barnaverndarstofa hefur um árabil reynt árangurslaust að innleiða þessa meðferðarstefnu en ávallt orðið frá að hverfa vegna skorts á fjármagi. Nú hins vegar hefur stofnunin fengið fjárveitingu og verður fróðlegt að sjá hvernig þetta starf fer af stað næsta haust.

Mikil umræða hefur átt sér stað í þjófélaginu um meðferðarmál ungmenna og meðferðarheimili. Umræðan og fréttaflutningur fjölmiðla hefur verið nánast einhliða, á þann hátt að meðferðarheimili séu ekki að standa sig og meðal annars hefur því verið haldið fram að reykvískir unglingar kjósi frekar að afplána í fangelsi en að fara á meðferðarheimili. Hefur verið vitnað í nýútkomna rannsókn þar sem 8 unglingar voru spurðir út í reynslu sína af meðferðarheimilum. Af þessum 8 einstaklingum höfðu aðeins 3 verið vistaðir á meðferðarheimili og út frá svörum þessara þriggja var alhæft að unglingar kysu frekar fangelsisafplánun en meðferðarvistun.

Hér er að mínu mati langt seilst til að koma höggi á meðferðarvistun unglinga og í leiðinni reynt að gera allt meðferðarstarf tortryggilegt.

Því miður hefur Barnaverndarstofa ekki haft fjármagn til að rannsaka árangur meðferðarheimilanna. Þó eru til nokkrar skýrslur og sú nýjasta verður að öllum líkindum birt fljótlega. Sú skýrsla fjallar um meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði og hvet ég alla til að kynna sér hana.    

Hin neikvæða umfjöllun um meðferðarheimili hefur að mínu mati haft afar skaðleg áhrif. Þau birtast í því að barnaverndarnefndir og foreldrar halda að sér höndum. Þora ekki að leita eftir þeirri aðstoð sem í boði er á meðferðarheimilum. Á meðan er ekkert gert fyrir þá einstaklinga sem eru á kafi í afbrotum og neyslu. Vandamálin eru til staðar, það vantar bara kjark til að viðurkenna vandann og bregðast við.


Stefán Íslandi í tali og tónum; í flutningi Karlakórsins Heimis ásamt fleirum.

Þann 5. janúar sl. flutti Karlakórinn Heimir ásamt einsöngvurum og upplesurum dagskrá í minningu Stefáns Íslandi. Frumflutningur þessara menningardagskrár var í Íþróttahúsinu í Varmahlíð og síðan þá hafa þeir flutt verkið í tvígang í Glerárkirkju á Akureyri.

StefanIsladiNú í kvöld verður svo verkið flutt í Reykholtskirkju kl. 21.30 og á morgun í Langholtskirkju kl. 16.00

Dagskráin um Stefán Íslandi í tali og tónum er viðamikil dagskrá þar sem margir aðilar úr ólíkum áttum sameina krafta sína og útkoman er í einu orði sagt glæsileg. Kórinn syngur 14 lög sem öll hafa skírskotun til óperusöngvarans Stefáns Íslandi með einum eða öðrum hætti. Á milli laga lesa upplesarar texta sem fjallar um líf og störf Stefáns frá unglingsárum í Skagafirði og síðan er honum fylgt eftir til Ítalíu og Kaupmannahafnar, allt þar til hann flyst til Íslands eftir mikla sigurgöngu á vængjum söngsins.

kor-1024ptKarlakórinn Heimir heldur nú upp á 80 ára starfsafmæli sitt og að mínu mati hefur þeim tekist frábærlega vel til með þessu efnisvali. Þessi dagskrá þeirra er með því allra besta sem ég hef séð karlakór leggja upp með. Í henni sameinast metnaður og þor til að takast á við nýja hluti þar sem farið er inn á alveg nýja braut og menningar- og skemmtanagildi þess margfaldast og höfðar til breiðari hóps.

Margir einstaklingar koma að uppsetningu á þessari miklu tónsýningu, ekki bara karlakórsmenn. Upplesarar eru þeir Agnar Gunnarsson á Miklabæ og séra Hannes Örn Blandon á Laugalandi í Eyjafirði. Einsöngvarar eru þeir Óskar, Pétur og Sigfús Péturssynir ásamt Þorgeiri J. Andréssyni óperusöngvara. Kórstjórnandi er sem fyrr Stefán R. Gíslason og þá er lýsing og listræn stjórnun í höndum Ægis Ásbjörnssonar.

Að mínu mati bætir Karlakórinn Heimir mörgum rósum í hnappagat sitt með þessum listviðburði sem ég kalla svo og er það vel við hæfi á 80 ára afmæli kórsins.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband